Íslenski boltinn

Víkingar bjóða Grind­víkingum í Víkina á morgun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fyrirliðar Víkinga og Grindavíkur. Víkingar hjálpa Grindvíkingum í sumar.
Fyrirliðar Víkinga og Grindavíkur. Víkingar hjálpa Grindvíkingum í sumar. Knattspyrnudeild Grindavíkur

Alveg eins og Blikarnir gerðu í körfuboltanum í vetur þá ætla Víkingar að aðstoða Grindvíkinga með aðstöðu í fótboltanum í sumar.

Í sumar munu meistaraflokkar Grindavíkur í knattspyrnu, karla og kvenna, bæði leika og æfa á Víkingssvæðinu í Safamýri. Jarðhræringarnar í Grindavík sjá til þess að enginn fótboltaleikur fer þar fram í ár en ein sprungan lá meðal annars í gegnum knattspyrnuhús bæjarins.

Hluti af samkomulagi Víkings og Grindavíkur er að fyrstu heimaleikir beggja liða yrðu leiknir í Víkinni (Heimavelli Hamingjunnar) með þeirri umgjörð sem Víkingur hefur byggt upp á undanförnum árum. Allur ágóði af miða- og veitingasölu rennur að sjálfsögðu óskiptur til Grindvíkinga.

„Víkingar ætla að bjóða okkur velkomin á sinn heimavöll í Víkinni. Þeir ætla að aðstoða okkur með umgjörð leikjanna og leggja fram hellings vinnu til að við sem að okkar liði komum getum þá aðeins slakað á og notið leikjanna ertir mikla vinnu síðustu mánuði,“ segir í fréttatilkynningu frá Knattspyrnudeild Grindavíkur

Á morgun, miðvikudaginn 1.maí, verða tveir leikir á dagskrá í Hamingjunni í Víkinni og er dagskráin sem hér segir.

Dagskráin á hátíð Grindvíkinga í Víkinni miðvikudaginn 1. maí 2024:

15:15 - Víkin opnar

16:00 - Grindavík - KR - Mjólkurbikar kvenna

18:15 - Hjaltested hamborgararnir byrja að hitna

19:15 - Grindavík - Fjölnir - Lengjudeild Karla



Jón Júlíus frá Grindavík verður vallarþulur og Sigurbjörn Trúbador keyrir upp stemninguna. Allur ágóði af miðasölu og sölu varnings og veitinga rennur óskiptur til Grindavíkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×